Seðlar
Seðlar
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Evrópskir bankar hafa aukið mjög það fjármagn sem þeir geyma hjá seðlabönkum víðsvegar um heiminn í kjölfar þrenginga á fjármálamörkuðum.

Í ársreikningum sem átta af stærstu bönkum Evrópu hafa þegar birt kemur fram að samtals áttu þeir um 816 milljarða dollara í lausafé og innlögnum hjá Seðlabönkum í lok síðasta árs. Það jafngildir helmingsaukningu frá fyrra ári þegar sömu bankar áttu um 543 milljarða dollara hjá Seðlabönkum.

Í umfjöllun bandaríska dagblaðsins The Wall Street Journal kemur fram að með því að geyma fé hjá Seðlabönkum í Evrópu, Bandaríkjunum og annar staðar í heiminum tryggi bankarnir lausafjárstöðu sína og svari kalli áhyggjufullra embættismanna í Evrópu sem vilja tryggja bankana gegn annarri lausafjárkreppu. Vitnað er til ummæla Josefs Ackermanns bankastjóra Deutsche Bank sem segir lausafé bankans meira en nokkru sinni í sögu bankans. Lausafjártryggingin kostar þó sitt þar sem bankar leggja háar fjárhæðir inn til Seðlabanka í stað þess að lána út til einstaklinga, fyrirtækja eða yfirvalda og líta sumir svo á að þetta auki enn á lánsfjárskort í Evrópu.

Athygli vekur að hingað til hefur ekki tíðkast að gefa reglulega upp fjármagn sem bankar eiga hjá Seðlabönkum en það hefur breyst á undanförnum árum og má hugsanlega túlka sem skilaboð banka til fjárfesta sem hafa nú sérstaklega opin augu fyrir lausafjárstöðu banka og fyrirtækja. Óvíst er hvort þær upphæðir sem bankarnir eiga hjá Seðlabönkum muni haldast svo háar en sumir forsvarsmanna bankanna segja þetta langtímalausn við breyttu regluverki, sem meðal annars kveður á um hærra eiginfjárhlutfall banka. Aðrir segja líklegra að bankar muni finna hagkvæmari ávöxtunarleiðir þegar ástand á evrópskum markaði batnar.