Nokkrir evrópskir bankar hafa fundið nýja leið til að auka bókfærðan hagnað sinn og bæta eiginfjárstöðu sína, sem þeir þurfa að gera áður en nýjar reglur taka gildi. Felst þessi leið í því að kaupa upp skuldabréf bankanna sjálfra, að því er segir í frétt Wall Street Journal.

Skuldavandi Evrópu hefur leitt til þess að ávöxtunarkrafa á skuldabréf margra stórra banka hefur hækkað og geta bankarnir sjálfir því keypt bréfin á verði sem er lægra en upphaflegu söluvirði þeirra. Mismuninn geta þeir bókfært sem hagnað og batnar eiginfjárstaða þeirra sem þessu nemur.

Meðal þeirra banka sem farið hafa þessa leið eru Societe Generale, Commerzbank, Banco Santander og Banco Comercial Portugues. Ein af ástæðunum fyrir því að þessi leið er farin er sú að bankarnir eiga hreinlega erfitt með að afla sér fjármagns á markaði, en margir fjárfestar eru tregir til að lána þeim fé.

Í grein Wall Street Journal segir hins vegar að með þessu geti bankarnir verið að loka fyrir aðgang að lánamörkuðum, sem muni gera þá háðari fjármagni frá evrópska seðlabankanum. Þróunin nú sé enn ein birtingarmyndin á stefnu sem einkennist af skammtímalausnum burtséð frá hugsanlegum neikvæðum afleiðingum í framtíðinni.