Evrópski seðlabankinn undirbýr það nú á ný að lána evrópskum bönkum fé á lágum vöxtum til lengri tíma og er gert ráð fyrir því að í heild muni seðlabankinn lána út sem nemur fimm hundruð milljörðum evra, sem samsvarar um 83.600 milljörðum íslenskra króna.

Í endaðan desember í fyrra fengu evrópskir bankar 489 milljarða evra að láni hjá seðlabankanum og er þeirri innspýtingu þakkaður viðsnúningur í trausti á evrópska bankakerfinu. Það virðist hins vegar ekki hafa dugað til og bendir greiningarfyrirtækið Fitch á að margir smærri bankar í álfunni berjist enn í bökkum. Er Fitch ekki sannfært um að þessi nýjasta lánahrina dugi til að bjarga þessum smærri bönkum, heldur sé aðeins verið að lengja í hengingarólinni.