Óeirðir
Óeirðir
Evrópskir bankar, sem halda um stóran hluta af skuldabréfum gríska ríkisins, hafa selt stóran hluta af grískum bréfum í sinni eigu. Þetta hafa þeir gert þrátt fyrir að ríkisstofnanir hafi hvatt þá til að halda bréfunum. Wall Street Journal greinir frá í dag og segir að sala bankanna sé helsta ástæða fyrir því að líkur á aðstoð frá einkaaðilum hafi dvínað.

Skuldabréf Grikklands sem falla á gjalddaga á næstu þremur árum nema um 64 milljörðum evra. Vonir leiðtoga evruríkja stóðu til að að einkareknir bankar myndu taka þátt við neyðaraðstoð, meðal annars með því að framlengja eindaga skuldabréfanna. Með því átti að brúa um 30 milljarða evra af halla Grikklands. Líkur á þátttöku bankanna þykja litlar, þar sem þeir hafa á síðasta ári selt hluta skuldabréfanna til þriðja aðila. Líklegir kaupendur eru vogunarsjóðir og aðrir fjárfestar, sem erfiðara er að fá til samstarfs.

Stærstu eigendur skuldabréfa ríkissjóðs Grikklands eru þýskir og franskir bankar.