Bankar og fjármálastofnanir innan aðildarríkja Evrópusambandsins (ESB) gætu þurft að auka eigið fé sitt um tvö hundruð milljarða evra. Joes Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, varpaði fram þeirri hugmynd í gær að bankarnir auki eigið fé sitt vegna óstöðugleika á fjármálamörkuðum.

Josef Ackermann, bankastjóri Deutsche Bank, hefur lýst sig andsnúinn hugmyndinni og efaðist um að innspýting fjármagns muni leysa vandamál bankanna.

Robert Peston, viðskiptaritstjóri breska ríkisútvarpsins (BBC) er sama sinnis og segir ríkið bæði líklegri og traustari kost sem bakhjarl bankanna en fjárfesta. Ekki sé um auðugan garð að gresja á fjármálamörkuðum nú um stundir.