Hlutabréfaverð í Evrópu hefur gefið eftir í morgun, eftir að hafa hækkað nokkuð við opnun markaða. Það sem af er degi er lækkun helstu vísitala þó lítilleg og ekkert á við ástand gærdagsins. Þá hrundi hlutabréfaverði, og nam lækkun í Evrópu víðast hvar um 5%. Í Bandaríkjunum lækkaði Nasdaq vísitalan um 3,25% og S&P 500 um 3,2%.

Wall Street Journal segir að lækkanir í dag megi rekja til efasemda fjárfesta um að loforð G20 þjóða dugi til að örva efnahagskerfi heimsins. Samtökin sendu frá sér tilkynningu seint í gær þar sem talað var um miklar og samstilltar aðgerðir ríkjanna.