Hlutabréfamarkaðir á evrusvæðinu virðast hafa tekið nokkuð vel í tíðindi morgunsins af samkomulagi um aðgerðir til að leysa skuldavanda Grikklands. Franska CAC 40 vísitalan hefur hækkað um 1,95% í dag og hin þýska DAX um 1,40% nú á ellefta tímanum.

Aðrir evrópskir markaðir hafa einnig hækkað. Svissneska markaðsvísitalan hefur hækkað um 1,03% og hin breska FTSE 100 um 0,68%. Bandarískir markaðir hafa ekki enn opnað síðan greint var frá tíðindunum.

Viðskiptablaðið greindi frá því í morgun að samkomulag hefði náðst milli leiðtoga evrusvæðisins um aðgeðir til að leysa skuldavanda Grikklands. 50 milljarða evra sjóður, sem samanstendur af eignum gríska ríkisins, verður meðal annars notaður til að fjármagna gríska bankakerfið.