Hlutabréfamarkaðir héldu áfram að hækka í Evrópu í dag og hafa nú hækkað fimm daga í röð en að sögn Reuters fréttastofunnar voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins.

Reuters segir þó að dagurinn hafi þó verið að mestu tíðindalaus og rólegur (líkt og á Íslandi í dag) en FTSE 300 vísitalan, sem mælir 300 stærstu skráðu félögin í Evrópu, hækkaði þó um 2,4%. Vísitalan hefur engu að síður lækkað um 13,7% það sem af er ári.

„Markaðir eru að þjakast upp á við í þeirri von að menn sjái fyrir endann á fjármálakrísunni og geti farið að sjá hagnaðartölur á ný,“ hefur Retuers eftir viðmælanda sínum.

„Það er þó spurning hvað þetta endist lengi því fjárfestar eru ekki að stunda viðskipti á voninni einni saman.“

Eins og fyrr segir voru það helst bankar og fjármálafyrirtæki sem leiddu hækkanir dagsins en þar munaði mestu um 22,6% hækkun Barclays eftir að fjölmiðlar á Bretlandi greindu frá því að stjórn bankans hefði rætt um það á stjórnarfundi að selja verðbréfadeild bankans (sem gengur undir nafninu iShares) en sú deild er ein talin ein verðmætasta verðbréfadeild í Evrópu.

Bankar á borð við HSBC, BNP Paribas, Societe Generale og Banco Santander hækkuðu um 4,5% - 9,3%.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,9%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 1,9% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 2,3%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 3,2% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 1,9%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1,6%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 2,4% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 1,7%.