Hlutabréfamarkaðir í Evrópu lækkuðu talsvert í dag eftir að hafa nánast allir sýnt grænar tölur fram yfir hádegi.

Retuers fréttastofan segir óróan á fjármálamörkuðum einfaldlega of mikinn sem síðan valdi áhættufælni fjárfesta. Viðmælendur Reuters telja að lausfjárkrísan eigi eftir að finna sér fleiri „fórnarlömb“ nú þegar búið er að ganga frá Lehman brothers og AIG.

Þá greinir Reuters frá því að fjármagnskostnaður hafi hækkað í dag að meðaltali um 10%.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði í dag um 2,1% eftir að hafa hækkað um 0,7% í morgun en vísitalan hefur nú ekki verið lægri í rúm 3 ár. Þá hefur vísitalan lækkað um 8% í þessari viku og stefnir á eina verstu samfelldu vikuna í sex ár að sögn Reuters.

Bankar og fjármálafyrirtæki leiddu lækkanir dagsins eins og síðustu daga. Þannig lækkaði HBOS um 19% eftir að fréttir bárust um yfirtöku Lloyds á bankanum. Þá lækkaði Royal Bank of Scotland um 12,7%, UBS um 5,7 og HSBC um 4,6% svo dæmi séu tekin.

Barclays hækkaði þó, einna fárra banka sem hækkuðu í dag, eftir að bankinn tilkynnti að hann myndi kaupa talsvert af eignum úr þrotabúi Lehman brothers.

Í Lundúnum lækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,3%, í Amsterdam lækkaði AEX vísitalan um 3,8% og í Frankfurt lækkaði DAX vísitalan um 1,7%.

Í París lækkaði CAC 40 vísitalan um 2,1% og í Sviss lækkaði SMI vísitalan um 1,2%.

Í Kaupmannahöfn lækkaði OMXC vísitalan um 1,1%, í Osló lækkaði OBX vísitalan um 2,6% og í Stokkhólmi lækkaði OMXS vísitalan um 3,4%.