Evrópski fjárfestingabankinn Bryan, Garnier & Co kaupir norræna fjárfestingabankann Beringer Finance og Aðalsteinn Jóhannsson, forstjóri og aðaleigandi Beringer, tekur sæti í stjórn yfirtökubankans og mun leiða alþjóðlega samruna, söluferli og yfirtökur. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu bankanna.

Sagt var frá því síðasta sumar að Beringer myndi sameinast stórum alþjóðlegum fjárfestingabanka „á næstunni“, og stöðunni sem Aðalsteinn tæki innan bankans.

Með kaupunum – sem eru háð samþykki viðeigandi fjármálaeftirlita og „öðrum hefðbundnum skilmálum“ – bætir Bryan, Garnier & Co við sig skrifstofum Beringer í Reykjavík, Stokkhólmi, Osló og Palo Alto í Kaliforníu. Tor Berthelius mun leiða norræna starfsemi bankans.

Allir starfsmenn Beringer munu ganga inn í fjárfestingabankateymi Bryan, Garnier & Co og starfa á skrifstofum félagsins í London, París, München, Stokkhólmi, Osló, Reykjavík, New York og Palo Alto. Eftir sameininguna starfa um 200 starfsmenn hjá Bryan, Garnier & Co.

Í tilkynningunni kemur fram að Beringer hafi síðastliðinn áratug tekið þátt í og leitt yfir 140 verkefni á sviði samruna og yfirtaka og öflun hlutafjár fyrir bæði skráð og óskráð félög. Félagið hafi byggt upp starfsemi sína í þjónustu við tæknitengda geira, þar á meðal upplýsinga- og fjártækni.

Haft er eftir Olivier Garnier, stofnanda og framkvæmdastjóra hjá Bryan, Garnier & Co:  „Bryan, Garnier & Co er sjálfstæður fjárfestingabanki sem sameinar reynt og frumkvöðladrifið starfsfólk við þjónustu og sérþekkingu fjárfestingabanka í fremstu röð. Sameiginlegur metnaður beggja félaga til aukinna viðskipta og þjónustu við tækni- og vaxtarfyrirtæki mun hraða sókn Bryan, Garnier & Co á Norðurlöndum. Við erum hæstánægð með að fá Aðalstein Jóhannsson og teymi hans til að leiða innrás okkar á Norðurlöndin og stækka enn frekar starfsemi okkar í stórum alþjóðlegum samrunum, söluferlum og yfirtökum, sem Aðalsteinn mun leiða.“

„Norðurlöndin eru ein helsta miðstöð Evrópu þegar kemur að tækni og líftækni og þar höfum við átt góða viðskiptavini til langs tíma.“ segir Greg Revenu, framkvæmdastjóri hjá Bryan, Garnier & Co. „Þessi sameining býr ekki einungis til spennandi tækifæri fyrir félagið og starfsfólk þess, heldur eykur það einnig getu okkar til að geta stutt við vöxt viðskiptavina okkar. Hún kemur greiningu og þekkingu okkar á tæknigeirum á næsta stig ásamt því að búa til nýja áskorun fyrir starfsemi okkar fyrir evrópsk líftæknifyrirtæki.“

„Við erum mjög spennt að ganga til liðs við Bryan, Garnier & Co.“ segir Aðalsteinn Jóhannsson, forstjóri Beringer Finance. „Þjónustuframboð þeirra í fjárfestingabankastarfsemi gerir okkur kleift að hraða vexti okkar og þjónusta viðskiptavini okkar enn betur. Líkt og Beringer Finance er Bryan, Garnier & Co drifið áfram af frumkvöðlum og eiga því menning og hugarfar þeirra til að takast á við áskoranir vel saman við þann anda sem við höfum byggt upp hjá Beringer Finance. Við hlökkum til að skrifa næsta kaflann í sögu okkar með þessu frábæra teymi.“