Helsta ástæða þess að stærstu seðlabankar heims snéru bökum saman í gær og dældu lausafjármagni inn á evrópska fjármálamarkaði er sú að óttast var að banki þar gæti farið á hliðina. Þetta fullyrðir greinandi hjá norræna risabankanum Nordea og danska dagblaðið Jyllands Posten vitnar til í dag.

Viðbrögð seðlabankana fólust í gjaldmiðlaskiptasamningum þar sem bankarnir létu bandaríska seðlabankann fá gjaldmiðla sína í skiptum fyrir dali. Horft er til þess að aðgerðin opni fyrir aðgang banka og fjármálastofnana í Evrópu að ódýrara lánsfé en býðst á almennum markaði.