Talið er að 1,3 milljónir húsa í Bandaríkjunum hafi annað hvort verið yfirgefin af eigendum sínum eða sett á nauðungaruppboð í kjölfar undirmálskreppunnar og afleiðinga hennar, að því er fréttavefur TV2 greinir frá.

Vitnar vefurinn í tímaritið Arena og segir að hin krappa niðursveifla sem orðið hafi á bandaríska fasteignamarkaðinum hafi orðið þess valdandi að margir Bandaríkjamenn hafa þurft að setja heimili sín á sölu eða einfaldlega yfirgefið þau, vegna þess að þeir hafa ekki ráð á að búa þar lengur.

Margir Evrópubúar séu hins vegar þess megnugir og sjái nú kauptækifæri.

Sumarbústaður á spottprís

Dæmi eru tekin af bænum Hollywood í Flórída, þar sem margir íbúar hafa horfið á braut í kjölfar efnahagsþrenginga, en í þeirra stað hafa Evrópubúar flykkst á svæðið.

Nú eru 80% fasteignakaupenda á svæðinu frá Englandi, Frakklandi, Þýskalandi og Ítalíu, knúnir áfram af hröðum verðlækkunum á fasteignum og lágu gengi dollara gagnvart mörgum evrópskum gjaldmiðlum.

Tímaritið tekur dæmi af eign sem seldist á 600 þúsund dollara á seinasta ári en var nýlega seld á uppboði á 240 þúsund dollara.

„Verðlækkanir og gengislækkun dollarans gerir þeim kleift að kaupa sér indælis sumarhús fyrir nánast spottprís,” segir í fréttinni.