Michael Leigh, forstöðumaður stækkunarferils í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB), svaraði því játandi aðspurður hvort hann teldi að Ísland yrði aðili að sambandinu fyrir árið 2015.

Þetta kom fram í umræðum eftir fyrirlestur Leigh, Stækkun Evrópusambandsins: Nýjar áskoranir, sem hann flutti við John Hopkins School of Advanced International Studies (SAIS) í Bologna Center síðastliðinn föstudag.

Leigh sagðist ekki eiga von á öðru en að aðildarviðræður við Ísland yrðu bæði „einfaldar og hreinskiptnar.“

Leigh var fyllilega kunnugt um að spurningin um hugsanlega inngöngu Íslands í ESB yrði sífellt áleitnari á vettvangi íslenskra stjórnmála – ekki síst sökum núverandi ástands á gjaldeyris- og fjármálamarkaði.

Hann útilokaði hins vegar þann möguleika að Ísland gæti gengið í myntbandalag Evrópu án þess að gerast aðili að sjálfu Evrópusambandinu. Slíkur valkostur væri alls ekki í boði.