Leiðtogar Evrópusambandsins frestuðu í nótt viðræðun um fjárlög sambandsins til næstu sjö ára og hefst fundur að nýju á hádegi á morgun. Margir leiðtoganna telja rétt að sambandið dragi heldur saman seglin í fjármálum, í takt við það það sem krafist er af mörgum aðildarlöndum. Á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC er haft eftir Bretum að nýjustu tillögur séu „skref í rétta átt,“ en að meira þurfi að gera til að skera niður útgjöld. Evrópska sendinefndin hefur lagt til 4,8% útgjaldaaukningu samanborið við fjárhagsáætlun árann 2007-2013. Í tillögum sambandsins er alls um að ræða 973 milljarða evra.

Póllendingar ásamt öðrum austur-evrópuþjóðum vilja viðhalda sambærilegum útgjöldum eða jafnvel auka þau en á því svæði reiða margar þjóðir sig töluvert á fjármagn frá Evrópusambandinu. Frakkar hafa hafnað öllum tillögum um niðurskurð í landbúnaðarmálum.

Í gær gaf sambandið út að umræður ættu að standa yfir fram á föstudag, jafnvel lengur. Haft hefur verið eftir Angelu Merkel þýskalandskanslara að kalla gæti þurft til annars fundar í byrjun næsta árs náist samkomulag ekki nú.