Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar kemur til með að frysta Evrópumálin um sinn og leggja ekki fram tillögu á Alþingi á þessu kjörtímabili. Þetta er meðal þess að kemur fram í drögum að stjórnarsáttmála sem að formenn flokkanna hafa farið með til þingflokka sinna og Morgunblaðið gerir að umfjöllunarefni sínu.

Hins vegar er í frekar almennu orðalagi opnað fyrir þann möguleika að slíkt mál komi fram undir lok kjörtímabilsins. Þó liggur ekki fyrir nákvæm skilgreining á hvaða tímasetningu á við.

Hvernig skiptast ráðuneytin?

Heimildir Morgunblaðsins herma að tillögur um ráðherraskipan hafa verið kynntar fyrir flokkunum. Samkvæmt tillögunum fær Sjálfstæðisflokkur forsætisráðuneyti, innanríkisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, utanríkisráðuneyti og ráðherra iðnaðar- og viðskiptamála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.

Viðreisn mun hins vegar fá ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála, fjármálaráðuneyti og ráðuneyti félags- og húsnæðismála í velferðarráðuneyti. Björt framtíð fellur því líklega í skaut ráðherra heilbrigðismála ásamt umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Kurr í landsbyggðinni

Heimildir Morgunblaðsins herma jafnframt að nokkurs kurrs gætir meðal þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem koma frá landsbyggðarkjördæmum vegna þess að Viðreisn hljóti ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála.

Nokkuð öruggt virðist að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, verði nýr forsætisráðherra, talið er líklegt að Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, verði nýr fjármálaráðherra og að Óttarr Proppé verði heilbrigðisráðherra.