Ekkert virðist ógna Evrópumeti Íslands í áfengissköttum,“ segir í frétt Félags atvinnurekenda, FA, um samanburð á skattlagningu áfengis í ríkjum álfunnar. Áfengisgjöld á Íslandi hækka um 2,5% á næsta ári í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Til ríkisins rennur áfengisgjaldið, virðisaukaskattur, skilagjald og álagning Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, ÁTVR. Út frá reikningum FA, sem byggja á forsendum um styrkleika, verði og stærð, fær ríkið mest í sinn hlut af verði vodkaflösku, eða 93,6%, þá af verði bjórflösku eða um 81,6%. Af verði léttvínsflösku fær ríkið 62,6% hlut.

Fram kemur að áfengisgjöld á Íslandi séu þau „langhæstu“ í Evrópu. Samkvæmt nýjasta samanburði Evrópusamtökum áfengisframleiðenda, Spirits Europe, eru áfengisgjöld á sterkt áfengi á Íslandi 387% yfir meðaltali allra Evrópuríkjanna 36 í samanburðinum og gjöld á bjór eru 345% hærri en í öðrum ríkjum Evrópu. Sé horft til léttvíns eru gjöldin 584% yfir Evrópumeðaltalinu og um 621% þegar borið er saman styrkt vín, líkt og púrtvín og serrí.

Mynd tekin af heimasíðu FA. Samanburður Europe Spirits á áfengisgjöldum Evrópuríkja.

Léttvínið og bjórinn þriðjungi ódýrari með dönskum sköttum

FA reiknaði út hvað áfengir drykkir myndu kosta á Íslandi ef þeir væru skattlagðir með sama hætti og í samanburðarríkjum í Norður- og Vestur-Evrópu. Í öllum tilvikum, að Noregi undanskildum, yrðu vörurnar mun ódýrari ef þær væru skattlagðar í takt við það sem gerist í löndum sem Ísland ber sig helst saman við.

Út frá þessum forsendum yrði léttvínsflaska, sem kostar tæplega 2.100 krónur í Vínbúðinni, rúmlega 37% ódýrari með dönskum sköttum og myndi kosta 1.318 krónur. Bjórflaska, sem kostar 369 krónur á Íslandi, myndi kosta 262 krónur með dönskum sköttum eða um 29% minna eða 310 krónur með sænskum sköttum.

Verð á vodkaflösku á Íslandi er sagður þrefalt á við það ef á hana væru lagðir skattar eins og í Evrópuríkjum að meðaltali. Væri skattlagning sambærileg því sem gerist í Svíþjóð yrði vodkaflaskan 39% ódýrari „og verða sænsk stjórnvöld þó seint sökuð um skort á skattagleði“ segir FA.

FA tekur þó fram að þessum forsendum gefnum kemur ekki út úr dæminu raunverulegt verð viðkomandi vöru í öðru landi, enda geta markaðsaðstæður verið mjög ólíkar á milli landa. Hins vegar veiti þessi útreikningur innsýn á það hvernig hvaða áhrif á verð það hefði að beita hér á landi sömu sköttum og í samanburðarlöndum.

Útreikningur á hvað bjór myndi kosta á Íslandi ef skattlagning yrði í samræmi við það sem þekkist í nágrannalöndum. Mynd tekin af heimasíðu FA

Áfengisgjöld út úr korti samanborið við nágrannalönd

„Ekkert Evrópuríki, ekki einu sinni Noregur, leggur jafnfáránlega skatta á áfenga drykki og Ísland. Þrátt fyrir að heims- og Evrópumetin falli ár eftir ár halda áfengisskattar áfram að hækka í hverju fjárlagafrumvarpinu á fætur öðru. Það hlýtur einhvers staðar og einhvern tímann að verða að segja stopp,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA.

Hann segir að skattur á sterkt áfengi sé algjörlega út úr korti í samanburði við öll nágrannalönd og að komi illa niður á innlendri áfengisframleiðslu. Einnig myndi hóflegri skattlagning áfengis gera íslenska ferðaþjónustu mun samkeppnishæfari.

„Svo fást aldrei svör frá stjórnmálamönnum við spurningunni um það hvað hinn íslenski neytandi hafi gert til að verðskulda að borga hátt í helmingi meira fyrir borðvínið sitt en neytendur í öðrum Norður- og Vestur-Evrópuríkjum að meðaltali,“ segir Ólafur.