*

laugardagur, 16. október 2021
Fólk 26. september 2021 19:02

Evrópumótið stærsta afrekið

Hrafn Ingvarsson hefur verið ráðinn forstöðumaður heilbrigðislausna hjá Origo.

Sigurður Gunnarsson
Hrafn Ingvarsson
Aðsend mynd

Það er virkilega spennandi tækifæri að fá að taka þátt í að þróa lausnir fyrir heilbrigðiskerfið og styðja þannig við heilbrigðisstarfsfólk og einstaklinga. Ég sá tækifæri til að nýta mína tæknilegu þekkingu til að kljást við þau vandamál sem eru til staðar í dag. Þegar þetta starf kom til tals þá var aldrei spurning um annað en að slá til,“ segir Hrafn Ingvarsson, nýráðinn forstöðumaður heilbrigðislausna hjá Origo.

Hann segir að fyrirtækið hafi á síðustu áratugum byggt upp sterka innviði sem hafi gert því kleift að bregðast hratt við þegar kórónuveirufaraldurinn hófst. Origo hafði því burði til að spila stóran þátt í að leysa Covid áskoranir við landamærin, skimanir og bólusetningar. Helstu verkefnin sem standa nú frammi fyrir Hrafni er áframhaldandi app þróun sem og að þróa rafrænu sjúkraskrá Sögu áfram, koma henni yfir í vefviðmót, ásamt því að huga að annarri nýsköpun fyrir heilbrigðisþjónustuna.

Hrafn hefur síðastliðin þrjú ár starfað sem framkvæmdastjóri hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Sendiráðinu. Hann segir að fyrirtækið hafi á sínum tíma breyst úr því að vera vefstofa og sé nú orðið hugbúnaðarhús. Sendiráðið sé farið að taka við stærri verkefnum og kemur meðal annars að þróun Stafræns Íslands. Þar áður var Hrafn hjá Betware, sem var síðar keypt af Novomatic, þar sem hann fór fyrir vörustýringu á öllum vörum sem tengdust veflausn fyrirtækisins.

„Maður þekkir því vefþróun nokkuð vel og mætti segja að það sé næsta skref sem þarf að taka í heilbrigðislausnum.“

Hrafn er gömul handboltakempa en hann er leikjahæsti leikmaður Aftureldingar í handbolta. Hann var í unglingalandsliðinu sem varð Evrópumeistari í Slóvakíu árið 2003, sem hann lítur á sem sitt stærsta afrek á ferlinum. Hann er enn nátengdur handboltanum og situr nú í meistaraflokksráði hjá Aftureldingu. „Maður hættir ekkert í þessu.“

Svo er búið að koma upp handboltavelli heima, þar sem synir hans tveir, Hjörtur Ingi og Haukur Erik, spila á hverju kvöldi. Hrafn segir að það hafi gleymst í umræðunni um klefamenningu síðustu misserin að þátttaka í hópíþróttum hafi einnig góð áhrif. Að alast upp við þetta umhverfi kennir manni að leysa vandamál, gefast ekki upp og vinna í hópum.

Hrafn hefur verið duglegur að hreyfa sig eftir handboltaferilinn og stundar golf, hjólreiðar og fjallgöngu. Hann afrekaði einnig að verða Landvættur árið 2016. „Ég segi oft að hreyfing bæti ekki árum við lífið en það bætir lífið í árunum.“

Nánar er rætt við Hrafn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.