Evrópunefnd sem stjórnarflokkarnir boðuðu í stefnuyfirlýsingu sinni fyrir tæpu ári fundaði í fyrsta sinn í morgun. „Það er mikill þungi í nefndinni, þ.e.a.s. menn taka þetta mjög alvarlega enda eru samskipti þjóðarinnar til lengri tíma litið við Evrópusambandið eitt stærsta hagsmunamál þjóðarinnar," segir Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar.

Ágúst Ólafur er eins og kunnugt er formaður nefndarinnar ásamt  Illuga Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokks. Ágúst Ólafur segir að verkefni nefndarinnar sé þríþætt. Í fyrsta lagi að fylgja eftir tillögum Evrópunefndar frá því í mars 2007 um aukna þátttöku stjórnmálamanna og embættismanna í hagsmunagæslu tengdri Evrópustarfi.

Í öðru lagi að gera nánari athugun á því hvernig hagsmunum Íslendinga verði best borgið í framtíðinni gagnvart ESB á grunni niðurstaðna Evrópunefndarinnar frá mars 2007. Og í þriðja lagi að fylgjast með þróun mála í Evrópu og leggja mat á breytingar út frá hagsmunum Íslendinga.

Ágúst Ólafur segir að nefndin muni hittast reglulega og hugsanlega standa fyrir útgáfu og fundum um þessi mál. „Við munum einnig vinna náið með sendiráðum og stjórnvöldum til að tryggja hagsmuni Íslendinga enn betur í þessu samstarfi."

Auk Ágústs Ólafar og Illuga eru í nefndinni: Bryndís Hlöðversdóttir frá Samfylkingu. Katrín Jakobsdóttir frá Vinstri grænum. Birkir J. Jónsson frá Framsóknarflokki. Jón Magnússon frá Frjálslynda flokknum. Ingimundur Sigurpálsson frá Samtökum atvinnulífsins. Gylfi Arnbjörnsson frá Alþýðusambandi Íslands. Erlendur Hjaltason frá Viðskiptaráði Íslands og Páll H. Hannesson frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.