Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins hyggst hefja fundarherferð hinn 12. desember nk. um land allt, þar sem ræða á m.a. kosti og galla aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

Þá hyggst nefndin opna á næstunni sérstaka vefsíðu þar sem almenningi verður gert kleift að nálgast upplýsingar um framgang og þróun starfs nefndarinnar. Þar verður jafnframt hægt að taka þátt í samræðum um málið og senda inn athugasemdir og ábendingar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum. Þar segir að undirbúningur að starfi Evrópunefndar flokksins miði mjög vel og að hún sé í fullum gangi þessa dagana.

Kristján Þór Júlíusson alþingismaður er formaður Evrópunefndarinnar. Verkefni hennar er m.a. að skoða stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu og skila greinargerð til landsfundar.