Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins leggur til að fram fari tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópusambandinu, þ.e.a.s. fyrst um það hvort sækja eigi um aðild og svo um sjálfan samninginn.

Tillögur nefndarinnar verða kynntar á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem hefst síðar í dag. Fundað verður um tillögurnar í starfshópi flokksins í kvöld. Á morgun fara síðan fram umræður um þær á landsfundinum.

Kristján Þór Júlíusson þingmaður er formaður Evrópunefndarinnar. Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið í dag að Íslendingar eigi ekkert erindi inn í ESB „að öllu óbreyttu" eins og hann orðar það.

Hann er jafnframt spurður út í afstöðu sína til tvöfaldrar atkvæðagreiðslu. „Ég vil engu svara til um það," svarar hann.

Fráfarandi formaður viðraði hugmyndina í áramótagrein

Geir H. Haarde, fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins, viðraði þessa hugmynd um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu.

Þar sagði hann að sjálfgefið væri að niðurstöður hugsanlegra aðildarviðræðna yrðu bornar undir þjóðina í atkvæðagreiðslu.

„En vegna alvöru og mikilvægis málsins tel ég einnig koma til greina að ríkisstjórnin fái, ef til þess kemur, skýrt umboð fyrirfram í þjóðaratkvæðagreiðslu til að ganga til aðildarviðræðna við ESB," skrifaði Geir um áramótin.

Nánar er fjallað um landsfund Sjálfstæðisflokksins í Viðskiptablaðinu í dag.