Samkvæmt tölum Eurostat voru fimm milljón atvinnulaus ungmenni að mæla göturnar í 27 ríkjum Evrópusambandsins á fyrsta árfjórðungi þessa árs. Hefur atvinnuleysi á meðal ungs fólks aukist hröðum skrefum síðan efnahagskreppan skall á í fyrrahaust.

Þegar tekið hefur verið tillit til sumarráðninga þá var atvinnuleysið á meðal ungs fólks á aldrinum 15 til 24 ára 18,3%. Er það mun hærra hlutfall en í öðrum aldurshópum, en að meðaltali var atvinnuleysið í Evrópusambandslöndunum 8,2% á fyrsta ársfjórðungi. Á evrusvæðinu sem 16 lönd falla undir var atvinnuleysið hjá ungu fólki 18,4% og meðaltal atvinnulausra í öllum aldurshópum var 8,8%.

Athygli vekur hvað atvinnuleysi ungmenn eykst hratt og óx það um 3,7 prósentustig á fyrsta ársfjórðungi 2009. Jókst atvinnuleysið í þessum hópi á tímabilinu í öllum aðildarríkjunum 27 nema Búlgaríu. Þar minnkaði atvinnuleysi ungmenna úr 13,9% á fyrsta ársfjórðungi 2008 í 13,5% nú.

Mest aukning á atvinnuleysi ungs fólks hefur á þessu ári orðið í Lettlandi. Þar hefur það aukist úr 11% 2008 í 28,2% á fyrsta ársfjórðungi 2009. Í Eistlandi jókst atvinnuleysi þessa hóps úr 7,6% í 24,1% og í Litháen úr 9,5% í 23,6%.

Mest atvinnuleysi ungmenna í aðildarríkjum ESB er þó á Spáni eða 33,6%. Þar er meðal atvinnuleysið 16,5%.

Minnsta aukning á atvinnuleysi fólks á aldrinum 15 til 24 ára á fyrsta ársfjórðungi þess árs var í Þýskalandi. Þar jókst atvinnuleysið frá sama tímabili í fyrra úr 10,2% í 10,5%. Næst kom Pólland en þar jókst atvinnuleysi ungmenna úr 17,8% í 18,2%.

Minnsta atvinnuleysi hjá ungmennum reyndist þó vera í Hollandi, eða “aðeins” 6%, en þar er meðaltals atvinnuleysið líka minnst, eða 2,9%.

Þess má einnig geta að atvinnuleysi ungmenna var á þessu tímabili 24,2% í Svíþjóð og 8,9% í Danmörku.