Framkvæmdarstjórn Evrópusambandsins hefur gagnrýnt ríkisstjórn Íslands harkalega fyrir að hefja aftur hvalveiðar í atvinnuskyni, segir í frétt Dow Jones.

Framkvæmdarstjórnin segir að ef hún fengi því ráðið yrðu allar hvalveiðar í atvinnuskyni bannaðar í eitt skipti fyrir öll. Hún segir að hvalir séu hluti af viðkvæmu jafnvægi sjávarlífs, sem þegar séu í hættu vegna veiða og mengunar.

Lög Evrópusambandsins banna hvalveiðar í atvinnuskyni og hefur sambandið stutt ákvarðanir Alþjóðahvalveiðiráðsins, segir í fréttinni.