Evrópusambandið (ESB) hefur samþykkt að lána Íslandi 300 milljónir evra, 52,3 milljarða króna, á fjögurra prósenta föstum vöxtum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Láninu er ætlað að auðvelda stjórnvöldum að takast á við þann efnahagsvanda sem þau glíma við nú um stundir.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ákveðið hafi verið að veita lánið í sambandi við ákvörðun framkvæmdastjórnar ESB í gær um að mæla með því að viðræður verði hafnar við Ísland um aðild að sambandinu.

ESB hefur boðið nokkrum ríkjum sem sótt hafa um aðild að sambandinu og öðrum nágrannaríkjum sérstaka lánafyrirgreiðslu sem alla jafna er veitt í tengslum við framkvæmd sérstakra efnahagsáætlana (e. macro-financial assistance). Lánin hafa einkum verið veitt til ríkja í Austur-Evrópu, landa við Miðjarðarhaf og ríkja á Balkanskaga. Nú hefur Ísland bæst í þann hóp.