Norska Nóbelnefndin hefur ákveðið að veita Evrópusambandinu friðarverðlaun Nóbels í ár. Í tilkynningu nefndarinnar segir að sambandið og fyrirrennarar þess hafi í yfir sex áratugi stuðlað að framgangi friðar, lýðræðis og mannréttinda í Evrópu.

Í tilkynningu frá nefndinni kemur meðal annars fram að í dag sé stríð á milli Frakklands og Þýskalands óhugsandi sem sé dæmi um það hvernig sögulegir óvinir geti unnið saman með því að byggja upp gagnkvæman trúnað.

Þá segir að innganga Grikkja, Spánverja og Portúgala hafi verið háð skilyrðum um innleiðingu lýðræðis. Fall Berlínarmúrsins hafi svo gert ýmsum Mið- og Austur-Evrópu þjóðum kleyft að sækja um að verða meðlimir í sambandinu. Með því hafi klofningi milli austurs og vesturs verið að mestu lokið.

í tilkynningunni segir að þó að Evrópusambandið sé í dag að kljást við efnahagslega erfiðleika og félagslega ólgu þá vilji norska Nóbelsnefndin beina athyglinni að því sem það telur mikilvægast við Evrópusambandið. Árangursrík barátta fyrir friði, sáttum, lýðræði og mannréttindum. Vinna sambandsins er talin standa fyrir bræðralagi milli þjóða sem heyrir undir þau skilyrði sem Alfred Nobel nefndi sem forsendu fyrir friðarverðlaununum.