Samkeppnisráð Evrópusambandsins mun koma saman í dag en fastlega er búist við því að ráðið muni tilkynna aðgerðir gegn tæknirisanum Google vegna meintra brota á samkeppnislögum. BBC News greinir frá málinu.

Málið snýst um leitarvél fyrirtækisins, en það er sakað um að hygla eigin þjónustuleiðum á kostnað samkeppnisaðila. Slíkt sé í andstöðu við reglur innan Evrópusambandsins. Rannsókn málsins hefur staðið yfir síðustu fimm ár en nú er búist við því að Evrópusambandið muni stefna Google.

Ef komist verður að þeirri niðurstöðu fyrir dómi að Google hafi brotið gegn lögum gæti fyrirtækið verið sektað um tugi milljarða evra. Hins vegar er búist við því að Google verði búið að semja við Evrópusambandið áður en til þess kemur. Fyrirtækið hefur ekki svarað ásökunum opinberlega.