Evrópusambandsaðild er ekki á dagskrá í Noregi, segir forsætisráðherra landsins, Jens Stoltenberg, í samtali við breska dagblaðið The Daily Telegraph á laugardaginn.

Enda þótt Stoltenberg viðurkenni að hann hefði gjarnan viljað vera viðstaddur hátíðarhöldin í Berlín um nýliðna helgi í tilefni fimmtíu ára afmælis Evrópusambandsins (ESB), segist hann hins vegar ekki búast við því að ESB muni aftur verða að kosningamáli í Noregi. "Almenningur í Noregi hefur í tvígang hafnað aðild að Evrópusambandinu. [...] Það er búið að útkljá þetta mál."

Noregur er eina ríkið sem hefur verið boðin aðild að Evrópusambandinu en síðan hafnað því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Að mati Stoltenberg var það rétt ákvörðun hjá norskum almenningi á sínum tíma. Það sé augljóst að Noregur hafi haft mikinn ávinning af því að standa fyrir utan ESB. "Hagkerfi okkar er öflugt, atvinnuleysi er lítið og hagvöxtur er mikill," segir Stoltenberg í frétt Daily Telegraph. Undanfarin sex ár hefur Noregur lent í efsta sæti sem það land sem best er að búa í samkvæmt árlegri lífskjarakönnun Sameinuðu þjóðanna.

Með því að hafna aðild að ESB hefur Norðmönnum einnig tekist að standa vörð um sjávarútveginn í landinu, að sögn Stoltenberg. "Stjórn fiskveiða í Noregi er í góðum málum. Ólíkt því sem hefur gerst í mörgum aðildarríkjum Evrópusambandsins eru fiskistofnar Norðmanna ekki í útrýmingarhættu."

Stoltenberg sagði ennfremur að Norðmenn mætu fullveldi sitt afar mikils. Í ljósi þess hversu ung þjóð Noregur er, geti margir Norðmenn "ekki hugsað sér það að grafa undan og veikja fullveldi þjóðarinnar með því að gerast aðili að Evrópusambandinu."