Gríska þingið þarf að samþykkja ýmis lög í samræmi við samkomulag leiðtoga evruríkjanna áður en evruhópurinn tekur ákvörðun um það hvort hefja eigi samningaviðræður um neyðarlánveitingu. Þá þurfa evruríkin að vera með í ráðum þegar löggjöf Grikklands á þeim sviðum sem samkomulagið tekur til er mótuð. Þetta kemur fram í samþykkt leiðtogafundar evruríkjanna sem fór fram í gærkvöldi og í nótt.

Greinilegt virðist af orðalagi samþykktarinnar að miklar efasemdir eru um getu Grikkja til að innleiða þær breytingar sem kveðið er á um án eftirfylgni og stuðnings frá Evrópusambandinu. Fram kom í máli Jeroen Dijsselbloem , leiðtoga evruhópsins, að það að byggja upp traust væri lykilatriði í þeim samningaviðræðum sem nú standa yfir.

Breytingar á lífeyriskerfi samþykktar fyrir miðvikudag

Í síðasta lagi á miðvikudaginn þarf gríska þingið að samþykkja breytingar á virðisaukaskattskerfinu sem miða að því að fækka undanþágum og stækka skattstofna. Þá þarf einnig að vera búið að samþykkja breytingar á lífeyriskerfi landsins sem miða að því að gera það sjálfbært til lengri tíma.

Fyrir miðvikudaginn þarf einnig að vera búið að samþykkja sjálfvirkar útgjaldaminnkanir, það er að segja lög sem tryggja að ekki verði vikið um of frá metnaðarfullum markmiðum um jákvæðan frumjöfnuð ríkissjóðs. Í síðasta lagi á miðvikudaginn í næstu viku þarf að samþykkja lög sem breyta og straumlínulaga dómskerfi landsins.

50 milljarða evra sjóður verður myndaður úr eignum gríska ríkisins, sem á að selja að miklu leyti. 25 milljarðar af honum fara í að endurfjármagna gríska bankakerfið.

Auðvelda skuli hópuppsagnir

Á meðal skilyrða samkomulagsins eru miklar efnahagslegar endurbætur í Grikklandi. Meðal annars þarf reglum um opnunartíma á sunnudögum að vera breytt, auk stofnanaumgjörðar lyfjamarkaða, mjólkurmarkaða og bakaría. Opinbera raforkudreifingaraðilann ADMIE þarf að einkavæða. Þá þarf að auðvelda hópuppsagnir og nútímavæða kjarasamninga.

Samkomulagið kveður einnig á um aðgerðir til að nútímavæða gríska ríkið og minnka ítök stjórnmálanna í grískum ríkisstofnunum. Fyrstu tillögur um aðgerðir í því efni þurfa að liggja fyrir í síðasta lagi eftir viku.

Í lok samkomulagsins er síðan í stuttu máli farið yfir fjármögnunarþörf Grikkja. Hún er metin 82-86 milljarðar evra. Engin bein fyrirheit um aðgerðir í því efni er hins vegar að finna í samkomulaginu.