Fjármálaráðherrar evruríkjanna funda í dag um skuldavanda ríkjanna. Talið er líklegt að meðal umræðuefna verði útgáfa svokallaðra „E-skuldabréfa“, sameiginleg útgáfa ríkistryggð skuldabréfa í þeim tilgangi að lækka kostnað við fjármögnun.

Í frétt BBC segir að efasemdir Þýskalands um ágæti hugmyndarinnar sé helsta fyrirstaðan. Fjármálaráðherra landsins hefur sagt að skuldabréfaútgáfan sé ógerleg án mikilla breytinga innan ESB.

Helstu stuðningsmenn hugmyndarinnar eru forsætisráðherra Lúxemborgar og fjármálaráðherra Ítalíu en þeir birtu grein í Financial Times þar sem talað er fyrir skuldabréfaútgáfunni.