Hiksti komst í viðræður um að koma á fót varanlegum björgunarsjóði í Evrópu vegna deilna um hvort gera eigi ráð fyrir því að eigendur ríkisskuldabréfa eigi að taka á sig afskriftir á þeim eignum. Í frétt Bloomberg segir að fjármálaráðherrum evruríkjanna hafi ekki enn tekist að brúa bil milli þeirra sem vilja að bankarnir taki á sig slíkar afskriftir og þeirra sem vilja að ákvæði um afskriftir verði ekki inni í rammasamkomulaginu. Eru það einkum Þjóðverjar og Hollendingar sem eru fylgjandi afskriftum banka og annarra kröfuhafa, en Frakkar, Spánverjar, Írar og Portúgalar eru því mótfallnir.

Til staðar er nú 440 milljarða evru björgunarsjóður, en markmiðið nú er að koma á öðrum varanlegum sjóði að fjárhæð 500 milljarða evra fyrir mitt næsta ár. Ef ekki tekst að ná samkomulagi um afskriftir er hins vegar óvissa um hvort það markmið náist. Embættismenn ESB og aðildarríkjanna reyna nú hvað þeir geta til að afla fjár í nýja sjóðinn til að sýna fjárfestum að þeir séu færir um að takast á við vaxandi skuldavanda svæðisins. Takist þeim að koma nýja sjóðnum á lappirnar hækkar björgunarsjóðsfjárhæðin úr 440 milljörðum evra í 940 milljarða og vonast þeir til að sú fjárhæð dugi til að lægja ólguna á fjármálamörkuðum.