Ríki Evrópu er of ólík til að þola sameiginlega mynt, að mati John Dizard, fjármálasérfræðingi og greinahöfundi breska dagblaðsins Financial Times og fleiri blaða. Hann var með erindi um framtíð Evrópu og evrunnar á fundi VÍB í hádeginu. Dizard sagði marga þætti skýra margbreytileika Evrópu. Þar sem helst skeri úr um sé mismunandi lífeyriskerfi aðildarríkjanna.

Dizard sagði aðildarríki Evrópusambandsins koma mis vel undan skuldakreppunni. Þjóðverjar og Bretar muni gera það ásamt öðrum löndum í norðurhluta Evrópu enda hafi lönd nyrðra laðað til sín menntað og harðduglegt fólks sem ekki sjái hag sínum borgið í þeim Evrópuríkjum í suðri sem standi illa.

Í framhaldi af því sagði hann Evrópu skiptast í tvo hluta.

„Mörkin munu liggja við ána Rín,“ sagði Dizard.