Fjármálaráðherrar evruríkjanna hafa samþykkt að veita Grikkjum 8,3 milljarða evra lán til að gera stjórnvöld kleift að standa við skuldbindingar sínar. Reiknað yfir í krónur hljóðar lánið upp á tæpa 1.300 milljarða íslenskra króna. Stærstur hluti lánsins eða 6,3 milljarðar verða greiddir út í enda mánaðar en afgangurinn í lok júní og í lok júlí.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) segir að lánveitingin og alþjóðlegar björgunaraðgerðir verði á borði ráðherra evruríkjanna þegar þeir funda í dag. Auk þess munu þeir ræða um aðhaldsaðgerðir stjórnvalda á Grikklandi sem eiga að koma landinu á réttan kjöl í kjölfar skuldakreppunnar á evrusvæðinu.

Samkvæmt umfjöllun BBC hefur ríkisstjórn Grikklands lyft grettistaki í rikisfjármálum. Ef vaxtakostnaður vegna himinhárra lána hins opinberra er undanskilin ríkisreikningin þá hefur tekið að eyða hallarekstri og er reiknað með því að hagvöxtur verði á þessu ári. Gangi það eftir verður þetta fyrsta skiptið í sex ár sem sést til sólar í efnahagslífi Grikkja.

Þrátt fyrir þetta er staðan á Grikklandi ekki góð. BBC bendir á að landsmenn finni enn fyrir miklum skattahækkunum og niðurskurði auk þess sem atvinnuleysi er með því hæsta sem mælist eða 27%.