Efnahagslægð hefur nú formlega lagst yfir evrusvæðið eftir að samdráttur varð í þjóðarframleiðslu innan svæðisins annan ársfjórðunginn í röð.

Fréttirnar af 0,2% samdrættinum á þriðja ársfjórðungi komu þó engum á óvart enda voru tvö stærstu hagkerfi svæðisins, þýska og ítalska, þegar komin í lægð.

„Þjóðverjar fengu sínar slæmu fregnir á fimmtudaginn og í ljósi þess að Þýskaland er burðarás evrópska hagkerfisins þá hafa vandræði þar þau áhrif að svæðið allt verður fyrir skakkaföllum,“ sagði Steven Rosenberg, fréttamaður BBC í Þýskalandi.

Síðastliðinn fimmtudag kom fram að þýska hagkerfið, eitt stærsta hagkerfi í heimi, hafði dregist saman um 0,5% á þriðja ársfjórðungi sem kom í kjölfar 0,4% samdrætti á öðrum ársfjórðungi.

Spænska hagkerfið dróst einnig saman á þriðja ársfjórðungi og var það í fyrsta skipti síðan 1993 sem það gerist.