Verðbólga var 3,1% á evrusvæðinu í nóvember og hefur ekki verið hærri í sex ár. Frá þessu greindi Financial Times í gær. Blaðið telur að seðlabanki Evrópu muni bregðast við með því að hækka stýrivexti.

Verðbólgan hefur aukist hratt en hún var 2,6% í október. Það er fyrst og fremst hækkun á olíu og mat sem veldur vaxandi verðbólgu. Seðlabanki Evrópu spáir því þó að verðbólgan muni hjaðna á næsta ári. Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans viðurkenndi þó fyrir fjölmiðlum að verðbólgan hafi vaxið meira en búist var við og virðist ætla að endast lengur. Seðlabankinn óttast að hækkandi vextir muni valda kröfu um vaxandi launaskrið sem muni viðhalda verðbólgunni.

Trichet hefur þegar gefið í skyn að seðlabankinn muni hækka stýrivexti, sem nú eru 4%, ef þörf krefur. Verðbólguspá bankans felur í sér að verðbólgan muni lækka á næsta ári og vonast er til að hún verði komin niður í 2% árið 2009. Seðlabanki Lúxemborg hefur þó varað við því að ekki sé tekið tillit til hækkunar á olíu og mat og áhrifa þess á launaskrið.

Verðbólga er nú lægst í Hollandi og Finnlandi, 1,8% og 2,1% en hæst í Slóveníu og Spáni þar sem hún er 5,7% og 4,1%.

Ef matarverð er tekið út úr verðbólgu útreikningum hefur verðbólgan samt sem áður aukist frá 2,1% í október í 2,3% í nóvember og hefur ekki verið hærri frá september 2002.