Evruumræðan hér á landi kom til tals á fundum Geirs H. Haarde forsætisráðherra í Lúxemborg og Brussel í vikunni. Gestgjafar ráðherrans höfðu heyrt af umræðunni og vildu vita meira.

Skilaboð ráðherrans til þeirra voru hins vegar skýr: Ekki stendur til að taka einhliða upp evru á Íslandi.

Forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean Claude Juncker, fagnaði yfirlýsingunni á fundi með Geir þar í borg, á fyrsta degi heimsóknarinnar. Juncker sagði að einhliða upptaka evru myndi leiða til margvíslegra vandamála.

Þá var José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, afdráttarlaus er hann lýsti því yfir á blaðamannafundi, vegna umræðunnar á Íslandi, að upptaka evru væri ekki möguleg án aðildar að ESB.

Nánar er fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .