Þrátt fyrir að ferðaiðnaðurinn hér á landi sé umsvifamikill allan ársins hring fer nú í hönd mesti álagstími greinarinnar.

Allir viðmælendur Viðskiptablaðsins eru bjartsýnir fyrir sumarið en blaðið hafði samband við stjórnendur hótela, rútufyrirtækja, bílaleiga, hvalaskoðunarfyrirtækja og aðra ferðaskipuleggjendur. Það er samdóma álit þeirra sem blaðið ræddi við að bókunum hefur fjölgað lítillega milli ára en þó ekki jafn mikið og það sem teljast má til hefðbundinnar aukningar milli ára síðustu ár.

Margir þeirra þakka þó fyrir aukningu og telja að efnahagsástandið í heiminum, ekki síst hér á landi, hafi ekki haft þau neikvæðu áhrif sem annars hefði mátt búast við.

Ferðaþjónustufyrirtæki þurfa að mestu leyti að verðsetja sig fram í tímann, í það minnsta eitt ár. Fæstir sáu fyrir bankahrunið síðasta haust en með sveiflukenndu gengi á fyrri hluta síðasta árs ákváðu mörg fyrirtæki að leggja fram verðskrá sína í evrum.

Margir viðmælendur blaðsins segja þó að stór hluti rekstrarkostnaðarins sé einnig í evrum og það dragi úr áhættunni af því að leggja fram verðskrá í evrum en hins vegar haldi tekjur í evrum iðnaðnum á floti.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .