Excel Airways, dótturfélag Avion Group, er fimmta stærsta ferðasamsteypa Bretlands samkvæmt opinberum tölum breskra flugmálayfirvalda. Miðað er við seldar ferðir á árinu 2005/2006, segir í frétt félagsins.

Excel Airways fékk leyfi fyrir tæplega 40% fleiri farþegum á árinu 2005/2006 en á árunum 2004/2005. Með þessari aukningu hefur Excel Airways Group farið úr áttunda sæti í það fimmta eins og félagið stefndi að á listanum yfir stærstu ferðasamsteypur Bretlands. Á árinu 2005/2006 seldi Excel Airways Group rúmlega milljón ferðir en á árunum 2004/2005 voru seldar ferðir hátt í 800 þúsund.

Sala Freedom Flights, dótturfélags Excel Airways, jókst mest eða um 64% frá fyrra ári. Freedom Flights selur eingöngu flugsæti í leiguflugum til ferðaskrifstofa innan Excel Airways Group og til annarra ferðaskrifstofa. Seldum flugsætum hjá Excel Airways Group kemur til með að fjölga enn frekar, bæði vegna aukinnar sölu hjá Freedom Flights og kaupanna á Kosmar Villa Holidays, sem flytur um 250 þúsund farþega á þessu ári.

Farþegum Excel Airways Group fjölgar um tæp 40% á sama tíma og markaðurinn dregst saman um tæp 6%. Á móti kemur að tekjur ferðaskrifstofa á hverja selda ferða hafa aukist um 5,5%.

Stærsta ferðaskrifstofa Bretlands er TUI Group og þar á eftir kemur Thomas Cook Group, My Travel Group er í þriðja sæti og í fjórða er First Choice Holidays Group. Þessar fjórar stærstu ferðaskrifstofur drógu allar úr sætaframboði á árinu 2005/2006.

Áætlað er að Excel Airways Group, Star Airlines og Star Europe flytji um fimm milljónir farþega á árinu, segir í frétt félagsins.