Avion Group harmar misvísandi fréttaflutning af málefnum félagsins í breskum og íslenskum fjölmiðlum, síðustu daga, segir í yfirlýsingu frá félaginu.

Excel Airways, dótturfélag Avion Group, gerði samninga við Alpha Airports síðastliðið sumar um kaup á þjónustu fyrir flugflota félagsins, sem felur í sér m.a. sölu á drykkjum um borð, og matarþjónustu fyrir farþega. Áður hafði Excel Airways tilkynnt Alpha um uppsögn á samningum milli félaganna, þar sem meðal annars átti að hætta að bjóða máltíðir í flugvélum Excel. Uppsögnin var liður í endurskipulagningu félagsins til að ná fram hagræðingu í rekstri.

Alpha Airports sótti fast að framlengja viðskiptasamband félaganna og niðurstaða samningaviðræðna leiddi til þess að Excel Airways var veittur afsláttur gegn langtímasamningi milli félaganna tveggja. Afslátturinn var veittur í formi kreditnótu og tók til áranna sem samið var um þjónustu við Alpha. Nú liggur fyrir eftir innri rannsókn hjá Avion Group að ekki var fylgt góðum reikningsskilavenjum við meðhöndlun þessa afsláttar.

Samkvæmt þeim reikningsskilavenjum sem Avion Group vinnur eftir hefði átt að tekjufæra afsláttinn hlutfallslega eftir því sem gjöld féllu til á samningstímanum. Nánari eftirgrennslan og niðurstaða innri rannsóknar leiddi í ljós mistök í þessu einstaka tilfelli.

Mistökin leiðrétt

Mistökin hafa nú verið leiðrétt með 10 milljón dollara niðurfærslu á árinu 2005. Þessi niðurfærsla mun ekki hafa neikvæð áhrif á rekstur félagsins eða sjóðsstöðu á yfirstandandi fjárhagsári. Niðurfærslan er gerð í samráði við endurskoðendur félagsins. Viðkomandi stjórnendur verða dregnir til ábyrgðar, segir í yfirlýsingunni.

Alpha hefur sent frá sér yfirlýsingu þess efnis að uppgjör fyrirtækisins fyrir fjárhagsárið 2005 standi óbreytt og hefur það nú verið samþykkt af endurskoðendum félagsins. Avion Group hefur upplýst um þetta mál, bæði í Kauphöll Íslands í maí og einnig í síðustu viku og var málið rakið á fundum með markaðsaðilum og fjölmiðlum 30. júní síðastliðinn.

Stjórn Avion Group hefur samþykkt ályktun sem felur í sér styrkingu yfirstjórnar Excel Airways Group, sem og að farið verði yfir verkferla til að koma í veg fyrir mögulega mistúlkun viðskiptasamninga í framtíðinni. Sérstök endurskoðunarnefnd (audit committe) verður sett á laggirnar innan Avion Group og mun nefndin heyra beint undir stjórn félagsins.
Þetta mál er einangrað tilfelli einnar afkomueiningar Avion Group og hefur það verið meðhöndlað sem slíkt, segir í yfirlýsingunni.

Fyrirhugaðar eru viðræður milli Excel Airways og Alpha um framtíðarviðskiptasamband félaganna tveggja. Alpha hefur lýst því yfir að samningar við Excel Airways séu mikilvægir fyrir félagið og rekstur þess enda voru upprunalegir samningar milli félaganna til fimm ára.

Vegna ofangreinds vill Avion Group undirstrika að félagið stendur við rekstrarlegar áætlanir á yfirstandandi fjárhagsári. Þar eru megin markmið að EBITDA hagnaður verði 165 milljónir dollara og velta félagsins er áætluð 2.100 milljónir dollara.