Excel Airways, dótturfélag Avion Group, gekk í dag frá samningi við General Electric Capital Aviation Services um leigu á tveimur nýjum Boeing 737-900ER, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Þetta er hluti af endurnýjun flota Avion Group.

Flugvélarnar verða settar á markað af Boeing verksmiðjunum á næsta ári og tvær Boeing 737-800 verða afhentar á öðrum ársfjórðungi 2007.

Einnig hefur verið gengið frá samningum um afhendingu fjögurra Boeing 737-800 véla á fyrstu sex mánuðum ársins 2007, tvær frá International Lease Finance Corporation og tvær frá Royal Bank of Scotland.

Allar vélarnar eru leigðar til átta ára.

Vélarnar tvær verða afhentar Excel Airways í maí 2008. Nýju vélarnar passa vel við Boeing 737-800 flota félagsins og er meðal annars hægt að samnýta 98% af öllum varahlutum í flugvélarnar, segir í tilkynningunni.

Floti Excel Airways samanstendur af 17 farþegavélum en yfir sumartímann eru um 30 flugvélar í rekstri hjá félaginu.

Hin nýja Boeing 737-900ER tekur 215 farþega og hefur flugdrægi upp á tæpa 4,000 kílómetra, full af farþegum og frakt. Til samanburðar tekur Boeing 737-800 mest 189 farþega og Boeing 757-200 mest 233 farþega, segir í tilkynningunni.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra var viðstaddur undirskrift samningsins þegar hann heimsótti höfuðstöðvar Excel Airways í Crawley í dag.