Seðlabanki Svíþjóðar gagnrýnir hagstofu landsins eftir að í ljós kom að tölur um atvinnuleysi í landinu hafa verið uppfullar af villum mánuðum saman sem geti haft slæm áhrif á stefnumótunarákvarðanir.

„Það sem gerðist var stórslys,“ hefur Bloomberg eftir aðstoðarseðlabankastjóranum Henry Ohlsson. „Opinberar hagtölur eru grunnurinn fyrir efnahagslegar stjórnmálaákvarðanir, og þetta er því sorgleg saga.“

Hagstofan hefur kennt undirverktakanum Evry um vandann, sem tók við úthringingum fyrir vinnumarkaðskönnun landsins en uppljóstrarar meðal starfsmanna hafa sagt að tölur byggðar á fölskum viðtölum yfir síma hefðu verið sendar út. Hefur hagstofan því þurft að lækka mat sitt á atvinnuleysi í landinu úr 7,4% í 6,6% og endurnýjað allar tölur sínar frá júlí 2018.

Evry hefur hafnað ásökununum, sem birtust í Aftenbladed, og sagt að þeir viti ekki hver sé ástæðan fyrir villunum. Hagstofan hefur hætt samstarfinu við fyrirtækið sem hefur fengið utanaðkomandi aðila til að rannsaka meintar villur.