*

föstudagur, 10. júlí 2020
Innlent 24. febrúar 2020 13:10

Excel villa kostar Novator 1,6 milljarða

Kólumbísk stjórnvöld krefja Novator um bætur eftir að félagið bauð óvart sjötíu milljarða í stað sjö í uppbyggingu fjarskiptanets í landinu.

Ingvar Haraldsson
Björgólfur Thor Björgólfsson.
Haraldur Guðjónsson

Novator Partners, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, er krafið um 12,3 milljónir dollara, um 1,6 milljarð króna af stjórnvöldum í Kólumbíu eftir að hafa dregið til baka hluta af tilboði sínu í uppbyggingu fjarskiptakerfi landsins. 

Tilboðið var dregið til baka eftir að Novator bauð fyrir mistök boðið tífalt hærri upphæð en til stóð í hluta fjarskiptakanetsins. Tilboðið hljóðaði upp á um 1.740 milljarða kólumbískra pesóa, jafnvirði um 70 milljarða króna en átti að hljóða upp á 174 milljarða pesóa um sjö milljarða króna. 

Ráðuneyti fjarskiptamála í Kólumbíu gaf út á föstudaginn að reglur útboðsins væru skýrar. Félagið ætti að greiða fjárhæðina fyrir að draga tilboðið til baka, í samræmi við reglugerðir. Í frétt Reuters segir að sig um málið segir að Novator hafi ekki enn tjáð sig um úrskurðinn.

Sjá einnig: Fær 42 milljarða og býr til fjarskiptafélag í Kólumbíu

Novator hélt eftir hluta tíðnisviða sem það vann í útboðinu. Novator mun greiða 257 milljónir dollara, um 32 milljarða króna fyrir þann hluta tilboðsins sem það hélt eftir. Fyrir það þarf félagið að sjá fyrir fjarskiptasambandi á 674 stöðum í landinu. Á móti fær Novator að nýta tíðnisviðin sem það vann í útboðinu í tuttugu ár.

Vilja byggja upp nýtt símafélag

Þá stefnir Novator að því að byggja upp nýtt fjarskiptafélag í Kólumbíu líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í janúar. Það yrði þá fjórða landið sem Novator kemur að uppbyggingu símafélags í. Novator byggði síðast upp fjarskiptafélagið WOM í Chile og þar áður Play í Póllandi og Nova á Íslandi.  Kólumbískir fjölmiðlar telja sig hafa heimildir fyrir því að Novator hafi einnig sýnt áhuga á að kaupa kólumbíska hluta fjarskiptafélagsins Telefónica að fullu eða að hluta.

Sjá einnig: Áður sýnt Kólumbíu áhuga

WOM greiddi Novator nýlega 30 milljarða króna í arð. Þá seldi Novator 12 milljarða króna hlut í Play í haust. Til stóð að nýta fjármagnið til frekari fjárfestinga.