Þungir dómar í Exeter-málinu svokallaða í júní hafa skilað því að frásagnir þeirra sem fara í skýrslutökur og yfirheyrslur hjá embætti sérstaks saksóknara eru skýrari og ítarlegri en áður.

Þegar dómur í málinu féll í Hæstarétti í sumar hlutu þeir Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, og Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður sparisjóðsins, fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm fyrir þátt sinn. Fyrri dómur héraðsdóms yfir Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi bankastjóri MP banka, var ómerktur og vísað aftur í hérað til löglegrar meðferðar.

Ólafur Þ. Hauksson, sérstakur saksóknari, segir í samtali við fréttastofu RÚV dóminn hafa hrist upp í mönnum, ekki síst fyrir þær sakir að um tiltölulega lágar fjárhæðir var að ræða, lán upp á 1,1 milljarð króna sem notað var til að kaupa stofnfjárbréf af MP banka af félagi í eigu Ragnars og síðan af Jóni Þorsteini.

Talsvert hærri upphæðir eru undir í mörgum þeirra mála sem embættið hefur til rannsóknar, að sögn Ólafs sem bætir við að af þessum sökum fái embættið meira út úr yfirheyrslum en áður.