Einkahlutafélagið Exeter Holdings, áður Tæknisetrið Arkea, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta. Félagið var úrskurðað gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 3. maí síðastliðinn, að því er kemur fram í Lögbirtingablaðinu.

Exeter-málið svokallaða er nú fyrir dómstólum en ákærurnar í því máli voru þær fyrstu frá embætti sérstaks saksóknara. Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byr, Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri, og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, eru allir ákærðir í málinu. Fyrirtaka í málinu var í nóvember á síðasta ári en hinir ákærðu kröfust þess að málinu væri vísað frá. Dómari hafnaði þeirri kröfu. Enn hefur ekki verið dæmt í málinu.

Allir eru ákærðir fyrir umboðssvik sem hafi valdið Byr verulegu fjárhagstjóni. Málið snýst um 1,1 milljarðs króna lánveitingu, í tveimur hlutum, sem Byr lánaði félaginu Exeter Holdings í október og desember 2008. Lánið var notað til þess að kaupa stofnfjárbréf af stjórnarmönnum Byrs, Jóni Þorsteini Jónssyni og Ómar Karli Haraldssyni, á yfirverði. Styrmir Þór er ákærður fyrir hlutdeild í þessum brotum en hluti lánsins fór í að kaupa stofnfjárbréf sem voru í eigu MP banka.

Auk Styrmis Þórs eru Jón Þorsteinn Jónsson og Ragnar Z. Guðjónsson ákærðir fyrir umboðssvik. Styrmir Þór er einnig ákærður fyrir peningaþvætti.

Frétt Viðskiptablaðsins frá þingfestingu málsins.