Ákæruvaldið í Exeter-málinu svokallaða vísar á bug rökstuðningi Styrmis Þórs Bragasonar, eins ákærða í málinu og fyrrverandi forstjóra MP banka, að „sjálfstæði ákæruvaldsins hafi verið raskað með ráðstöfunum æðstu handhafa framkvæmdarvaldsins í landinu“.

Í greinargerð ákæruvaldsins, sem Björn Þorvaldsson saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara vann, segir að frávísunarkrafa Styrmis byggi á því að verksvið Evy Joly, ráðgjafa við embætti sérstaks saksóknara, hafi verið víðtækara en almennt sé gert ráð fyrir í lögum.

„Í raun hafi hún verið með einhversskonar „allsherjarvald“ við embættið. Er því m.a. haldið fram að hún hafi fyrirskipað stjórnvöldum að fjölga starfsmönnum við embættið og að hún hafi mælt fyrir um óhefðbundnar aðgerðir við rannsókn þessa máls sem hafi í „ýmsum tilvikum leitt til ólögmætra aðgerðra við lögreglurannsókn“ málsins. Þá segir að hún virðist telja sjálfsagt að réttindi sakborninga séu fótum troðin í málum þar sem hún stýrir rannsóknaraðgerðum.“

Þetta kemur fram í greinargerðinni en þar vísar ákæruvaldið í frávísunarkröfu Styrmis Þórs.

Vísað á bug

„Ákæruvaldið vísar þessum órökstuddu og stóryrtu fullyrðingum algerlega á bug. Rétt er að Eva Joly var á þessum tíma ráðgjafi við embætti sérstaks saksóknara, eins og alkunna er, á grundvelli heimildar í 2. mgr. 4. gr laga um embætti sérstaks saksóknara til að leita til sérfræðinga, innlendram sem erlendra, eftir því sem þurfa þykir.

Liggur fyrir í málinu starfssamingur hennar við embætti sérstaks saksóknara frá 28. mars 2009. þar er skýrt kveðið á um hvert hlutverk hennar sé, þ.e. að veita embættinu sérfræðiráðgjöf, aðstoða við að koma á tengslum við erlend lögregluembætti og koma á og hafa eftirlit með samskiptum við sérstaka erlenda sérfræðinga varðandi skoðun á bókhaldi, ársreikningum og tölvugögnum.“

Ákæruvaldið bendir á að sérstaklega sé tekið fram í umræddum samningi að saksóknarinn stýri rannsóknum embættisins og sé ábyrgur fyrir framkvæmd þeirra. Þar sé einnig tekið fram að rannsóknarvinna fari fram af lögreglumönnum undir stjórn saksóknarans en þó sé unnt að leita til Evu Joly um ráðgjöf varðandi rannsóknir eftir því sem þurfa þykir.

Allt innan ramma

„Allt starf sem Eva Joly hefur unnið fyrir embættið hefur verið innan ramma samningsins. Hefur hún á engan hátt stýrt rannsóknum embættisins eða fyrirskipað stjórnvöldum eitt né neitt varðandi rekstur embættisins. Hún hefur vissulega gefið ráð, byggð á reynslu hennar og þekkingu, enda ráðin til þess, en hún hefur ekki haft neitt ákvörðunarvald yfir embættinu eða rannsóknum þess.

Hafði hún til að mynda engin afskipti af þeirri rannsókn sem leiddi til ákæru í máli þessu og ekkert tjáð sig um sakarefni eða sakborninga. Fullyrðingar um að hún hafi „mælt fyrir um óhefðbundnar rannsóknaraðgerðir í þessu máli“ og að það hafi „leitt til ólögmætra aðgerða við lögreglurannsókn“ eru því rangar, enda með öllu órökstuddar.“ Þetta segir í greinargerð ákæruvaldsins.

Því telur ákæruvaldið augljóst að hafna beri þessari „fráleitu frávísunarkröfu“.