Munnlegur málflutningur í Exeter-málinu svokölluðu. Ólafur Eiríkisson, lögmaður Ragnars Z. Guðjónssonar fyrrverandi forstjóra Byrs, sagði í málflutningi sínum að sérstakur saksóknari hafi ekki heimild til að rannsaka málið.

„Sérstakur saksóknari hafði ekki heimild til þess að rannsaka málið né gefa út ákæru,“ sagði Ólafur. Hann sagði að lög um sérstakan saksóknara segi til um að málin er tengjast setningu neyðarlaganna eigi heima hjá embættinu. Lánveitingar Byrs tengist ekki neyðarlögunum á nokkurn hátt og því beri að vísa málinu frá.

Bætt við 10:06:

Ólafur sagði að lögunum um embætti sérstaks saksóknara hafi verið breytt árið 2010 eftir ábendingu frá ríkissaksóknara. Það hafi verið gert þar sem hætta væri á því að lagaákvæði um að mál þyrftu að eiga sér stað fyrir setningu neyðarlaganna kynni að leiða til frávísunar.

Þar sem rannsókn á máli ákærðu hafi verið hafin löngu áður en lagabreytingin átti sér stað þurfi eldri lög að gilda um mál ákærðu. Samkvæmt þeim eigi málið ekki heima hjá embætti sérstaks saksóknara og því beri að vísa frá, að mati Ólafs Eiríkssonar.

Hann sagði rannsókn málsins í heild ónýta.

Frekar má lesa um munnlegan málflutning í málinu í morgun hér og hér .