Björn Þorvaldsson, saksóknari hjá embætti sérstaks saksóknara, hafnar því alfarið að vísa eigi frá máli embættisins gegn Jóni Þorsteini Jónssyni, fyrrverandi stjórnarformanni Byr, Ragnari Z. Guðjónssyni, fyrrverandi forstjóra Byr, og Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi forstjóra MP banka. Þetta kemur fram í greinargerð Björns sem hann lagði fram í dómsal í gær.

Þremenningarnir eru ákærðir í svonefndu Exeter-máli fyrir umboðssvik er Byr veitti Tæknisetrinu, síðar Exeter Holdings, samtals rúmlega milljarðs króna lán til þess að kaupa stofnfjárbréf af Jóni Þorsteini, Húnahorni, félagi Ragnars, MP banka og nokkrum lykilstarfsmönnum Byr. Lánin vor veitt í október og desember 2008.

Hafnar því að rannsóknin hafi verið ófullnægjandi

Í greinargerð sinni, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, hafnar Björn því alfarið að rannsókn málsins hafi verið áfátt eins og haldið er fram í greinargerðum Jóns Þorsteins og Ragnars. Greinargerðin var lögð fram í dómsal í gær. „Er þar [í greingargerðum ákærðu innsk. blm.] fullyrt að málið sé af hálfu ákæruvaldsins á því byggt að [stofnfjár]bréfin hafi þá verið lítils eða einskis virði og því hafi borið að rannsaka hver fjárhagsstaða Byrs var þá. Ákæruvaldið mótmælir þessum fullyrðingum sem röngum. Ekkert kemur fram í ákæruskjalinu sem styður fullyrðingar ákærðu um að málið sé byggt á stöðu Byrs eða verðmæti bréfanna,“ segir í greinargerð Björns.

Hann segir ákæruna fyrst og fremst taka mið af því að lánin hafi farið gegn „reglum sparisjóðsins um lánveitingar og veðsetningarhlutföll tryggingarandlaga „ því hafi lánið verið án fullnægjandi trygginga „sem hafi haft í för með sér fjártjónsáhættu fyrir sparisjóðinn“. Er í þessu vísað til þess að lán Byrs til Exeter voru veitt með veði í stofnfjárbréfunum eingöngu. Björn segir að ástand á mörkuðum á þeim tíma þegar lánin voru veitt, í október og desember 2008, hafi átt að fá stjórnendur Byrs til þess að fara varlega í lánveitingum, í það minnst að fara eftir reglum um lánveitingar. „Þvert á móti var lán veitt til einkahlutafélags sem hafði neikvæða eiginfjárstöðu til fjármagna að fullu kaup á stofnfjárhlutum sem voru í eigu ákærða Jóns Þorsteins, Húnahorns, einkahlutafélags sem m.a . var í eigu Ragnars Zophóníasar og stofnfjárhlut tiltekinna lykilstarfsmanna sparisjóðsins og eingöngu tekið veð í bréfunum sjálfum, þe. Með 100% veðsetningarhlutfalli bréfanna miðað við höfuðstól, í stað 30% eins og reglu sparisjóðsins sögðu til um,“ segir í greinargerðinni.

Munnlegur málflutningur vegna frávísunarkröfunnar fer fram 3. nóvember nk.

Fleiri fréttir úr greinargerðum í málinu munu birtast á vef Viðskiptablaðsins í dag og næstu daga.