„Ákæruvaldið mótmælir því að embætti sérstaks saksóknara hafi ekki haft heimild að lögum til að fara með málið. Þvert á móti er því haldið fram að afar skýrt hafi verið í lögum að sú heimild hafi verið fyrir hendi,“ segir í greinargerð Björns Þorvaldssonar, saksóknara hjá embætti sérstaks saksóknara, þar sem frávísunarkröfu ákærðu í Exeter-málinu er hafnað.

Ákærðu í málinu, Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi forstjóri Byrs, og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, halda því fram í greinargerðum sínum vegna frávísunarkröfu þeirra að embætti sérstaks saksóknara hafi ekki heimild til þess að rannsaka Exeter-málið. Því þurfi að vísa málinu frá. Í greinargerðum þeirra er meðal annars horft til þess að þessi tilteknu viðskipti falli ekki undir starfssvið embættisins, sem hafi verið komið sérstaklega á fót til þess að rannsaka mál er tengdust falli viðskiptabankanna þriggja. Í greinargerð Jóns Þorsteins er m.a. vitnað til laga um embætti sérstaks saksóknara þar sem segir að embættið hafi verið sett á fót „til að rannsaka grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda, tengslum við og kjölfar atburða sem leiddu til setningar laga um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálmarkaði.“ Eru færð fyrir því rök í greinargerð Jóns Þorsteins, og raunar Ragnars og Styrmis einnig, að málið eigi ekki heima hjá embætti sérstaks saksóknara, einkum þar sem málið tengist ekki beint setningu neyðarlaganna og hruni viðskiptabankanna þriggja.

Telur lögin alveg skýr

Þessu hafnar Björn í greinargerð sinni, sem hann lagði fram í dómsal í gær. Hann segir að skýr heimild sé fyrir því í lögum að rannsaka Exeter-málið. Einkum er þar vísað til þess að augljóst sé af orðalagi laganna, að embætti eigið að rannsaka mál sem hafa vísun „til þess ástands sem þá skapaðist á fjármálmarkaði“ þ.e. eftir fall bankanna. Lögin voru samþykkt í desember 2008. „Ljóst er að fall bankanna þriggja í október 2008 var upphaf að falli fleiri fjármálastofnana en alls hafa 8 fjármálastofnanir verið yfirteknar í framhaldinu,“ segir m.a. í greinargerð Björns.

Þá vitnar hann til orða Birgis Ármannssonar, sem var formaður allsherjarnefndar Alþingis þegar lögin voru sett, í desember 2008: „hvort sem brotin hafa átt sér stað innan fjármálafyrirtækja, eða í tengslum við starfsemi annarra lögaðila eða einstaklinga þannig að jafnvel þótt brot séu framin af aðilum sem störfuðu utan fjármálafyrirtækjanna þá heyri slíkt með skýrum hætti undir gildissvið þessara laga.“

Að auki segir hann alveg skýrt af áliti allsherjarnefndar að dæma að atburðir er tengjast falli fjármálakerfisins heyri undir svið embættis sérstaks saksóknara „Nefndin leggur hins vegar áherslu á að markmiðið með greininni er að embættið geti rannsakað grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við sem og í kjölfar þeirra atburða er leiddu til setningar laganna og leggur því til breytingar á orðalaginu sem skýra þann skilning nefndarinnar. Þá leggur nefndin einnig til þá breytingu á 1. gr. að tekið verði skýrt fram að rannsóknin og eftir atvikum saksóknin eigi einnig við það ástand er skapaðist á fjármálamarkaðnum, hvort brotin hafa átt sér stað innan fjármálafyrirtækja, eða í tengslum við starfsemi annarra lögaðila eða einstaklinga.“

Björn segir þetta sýna, ásamt öðru, að ótvírætt sé að embættið hafi heimild til að rannsaka Exeter-málið.

Munnlegur málflutningur vegna frávísunarkröfunnar fer fram 3. nóvember nk.

Fleiri fréttir úr greinargerðum í málinu munu birtast á vef Viðskiptablaðsins í dag og næstu daga.