Þáttur Styrmis Þórs Bragasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóri MP Banka, í Exeter-málinu svokallaða verður tekinn fyrir á ný í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hæstiréttur sendi mál Styrmis aftur í hérað til löglegrar meðferðar í júní síðastliðnum. Á sama tíma voru þeir Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, og Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs, dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir þátt sinn í Exeter-málinu.

Fram kom á mánudag að Jón Þorsteinn hafi nýverið byrjað að afplána dóm sinn á Kvíabryggðu.

Héraðsdómur sýknaði þremenningana í fyrrasumar. Einn þriggja dómara vildi þó sakfella þá Ragnar og Jón, en var sammála meirihlutanum um að sýkna bæri Styrmi.

Ákæran á hendur Ragnari, Jóni Þorsteini og Styrmi Þór tengist lánveitingum upp á um 1,1 milljarð króna, sem Byr veitti félaginu Exeter frá október til desember 2008. Féð var notað til þess að kaupa stofnfjárbréf af MP banka af félagi í eigu Ragnars og síðan af Jóni Þorsteini. Þeir voru ákærðir fyrir umboðssvik, fyrir að hafa keypt stofnfjárbréfin á yfirverði og með því valdið Byr tjóni sem að öllu jöfnu hefði lent á ákærðu, Ragnari og Jóni Þorsteini, og síðan á MP banka. Styrmir Þór var einnig ákærður í málinu fyrir peningaþvætti, fyrir að hafa sem framkvæmdastjóri MP banka látið bankann taka við fé sem hann átti að vita að hefði skilað sér til bankans með umboðssvikum.