Aðalfundur Existu [ EXISTA ], sem lauk á sjöunda tímanum í dag, samþykkti að breyta hlutafé félagsins í evrur. Bókhald félagsins er þegar fært í evrum. Í ræðu sinni á fundinum sagði stjórnarformaður félagsins, Lýður Guðmundsson, að hátt skuldaálag á bankana tengdist fremur Íslandi en bönkunum sjálfum og að ríkisvaldið yrði að gera það sem það gæti til að bæta starfsumhverfi fyrirtækja hér á landi. Meðal þess væri að heimila þeim að skrá hlutafé sitt í erlendum gjaldmiðlum.

Á aðalfundinum var einnig samþykkt tillaga um að greiða ekki út arð að þessu sinni vegna erfiðra markaðsaðstæðna. Í ræðu stjórnarformanns kom fram að ef markaðsaðstæður bötnuðu síðar á árinu kæmi til greina að gera breytingar á þessu, enda sé stefna félagsins í eðlilegu árferði að greiða út arð til hluthafa.

Sjálfkjörið var í stjórn Existu og fjölgað var um einn í stjórn. Stjórnina skipa nú þau Ágúst Guðmundsson, Bogi Óskar Pálsson, Guðmundur Hauksson, Hildur Árnadóttir, Lýður Guðmundsson, Robert Tchenguiz og Sigurjón Rúnar Rafnsson.