Exista hefur afturkallað tilkynningu sína um hlutafjáraukningu fá 8. desember í fyrra. Í frétt frá félaginu segir að það hafi átt í viðræðum undanfarið við fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra vegna tilkynningarinnar. Ábendingar hefðu borist frá fyrirtækjaskrá um að í tilkynningunni væru atriði sem kynnu að orka tvímælis.

Exista segist í fréttinni telja tilkynninguna eðlilega, en hafi afturkallað hana til að eyða öllum efasemdum um réttmæti hennar og þetta hafi verið gert í samráði við fyrirtækjaskrá.

Í fréttinni minnir Exista á að félagið hafi tilkynnt um áform stjórnar um að leggja til við hluthafafund að hlutafé verði fært niður. „Viðræður Exista við fjármálastofnanir um endurskoðun lánasamninga og uppgjör gagnkvæmra krafna hafa hins vegar valdið töfum á því. Vonast stjórn Exista til þess að unnt verði að leggja tillögu um að færa niður hlutaféð fyrir hlutahafafund sem allra fyrst,“ segir í fréttinni.