Kauphöllin hefur ákveðið að áminna og taka fjármálagerninga Exista hf. úr viðskiptum þar sem Exista hefur, að sögn Kauphallarinnar, ítrekað gerst brotlegt við reglur sem gilda fyrir útgefendur fjármálagerninga í Kauphöllinni. Þá hefur Kauphöllin bæði áminnt félagið og beitt það févíti vegna brota á upplýsingaskyldu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kauphöllinni en fjármálagerningar félagsins verða teknir úr viðskiptum Kauphallarinnar eftir lokun markaða þann 16. nóvember 2009.

Málavextir eru þeir að þann 16. september sl. birtist frétt í fréttamiðlinum DV þar sem fram kom að sala Exista á 39,629% hlut sínum í Bakkavör Group hf. (Bakkavör) hafi verið gerð með svokölluðu seljandaláni. Einnig kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann sama dag að fundur yrði haldinn með kröfuhöfum þann 17. september sl.

Fram kemur í tilkynningu Kauphallarinnar að Kauphöllin óskaði í framhaldinu eftir upplýsingum um hvort upplýsingarnar um seljandalán til kaupenda Bakkavarar væru réttar og hvort ekki væri um að ræða verðmótandi upplýsingar fyrir skuldabréf Exista. Einnig var spurt hvort ekki yrði opinberlega tilkynnt um fundinn með kröfuhöfum. Svör félagsins bárust þann 17. september sl.

Þá fór Kauphöllin fram á frekari upplýsingar frá félaginu þann 18. september sl. um skilmála seljandalánsins, t.d. tryggingar, ábyrgðir og greiðsluskilmála. Einnig óskaði Kauphöllin eftir upplýsingum um hversu stórt lánið væri með tilliti til efnahagsreiknings félagsins þann 11. september sl. Að auki óskaði Kauphöllin eftir upplýsingum um hvaða upplýsingar komu fram á fundi með kröfuhöfum sem vitnað var til í fyrirspurn Kauphallarinnar. Svör félagsins bárust þann 25. september sl.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að þann 24. september sl. birtist frétt í Morgunblaðinu þar sem fram kom að fundur með lánardrottnum Exista hefði verið haldinn í London 17. september sl. Í fréttinni var vísað í Ágúst Guðmundsson, stjórnarmann Exista en fram kom að á fundinum hefði verið farið yfir rekstur dótturfélaga fyrstu átta mánuði þessa árs og að KPMG í London hefði kynnt kröfuhöfum hvert endurgreiðsluhlutfall lána yrði miðað ákveðnar forsendur, ef félagið færi í þrot eða farið yrði eftir tillögum stjórnar.

Þann 24. september sl. óskaði Kauphöllin eftir upplýsingum frá félaginu um það hvort rétt væri haft eftir Ágústi Guðmundssyni í umræddri blaðagrein um upplýsingar um rekstur dótturfélaga og endurgreiðsluhlutfall. Ef svo væri, óskaði Kauphöllin eftir upplýsingum um það hvort félagið teldi upplýsingar um rekstur dótturfélaga fyrstu átta mánuði ársins og mögulegt endurgreiðsluhlutfall lána við ákveðnar forsendur, vera þess eðlis að þær gætu haft marktæk áhrif á markaðsverð skuldabréfa félagins, ef opinberar væru. Teldi útgefandi svo vera þá krafðist Kauphöllin þess að þær upplýsingar væru birtar án tafar. Svör félagins bárust þann 1. október sl.

Þá kemur loks fram að þann 13. október óskaði Kauphöllin eftir frekari skýringum frá félaginu um seljandalánið. Óskað var upplýsinga um fjármögnun Exista B.V., hvort félagið væri fjármagnað með öðrum hætti en í gegnum móðurfélagið Exista hf. og ef svo væri að hve miklu leyti félagið væri fjármagnað með lánsfé í gegnum móðurfélagið annars vegar og með lánsfé frá öðrum lánadrottnum hins vegar.

Einnig var óskað eftir upplýsingum um hvort einhverjar hömlur væru á fjármagnsflutningi Exista B.V. til Exista hf. og ef svo væri hvort það hefði verið tilkynnt opinberlega og þá hvar. Svör félagsins bárust þann 14. október sl.

Í niðurstöðu ákvörðunar Kauphallarinnar kemur fram að þrátt fyrir að skýrsla um endurgreiðsluhlutfall lána hafi ekki verið unnin að frumkvæði félagsins telur Kauphöllin að um verðmótandi upplýsingar sé að ræða og að félagið hafi átt að birta upplýsingar um áætlað endurgreiðsluhlutfall þegar skýrslan lá fyrir, með útskýringum stjórnenda ef þess hefði verið þörf. Sérstaklega beri að hafa í huga að skýrslan sé unnin úr gögnum sem fengin voru frá félaginu sjálfu.

Kauphöllin segir að útgefandi, sem fengið hefur skuldabréf sín tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði, geti ekki vikið sér undan skyldu sinni til upplýsingargjafar með því að skrifa undir trúnaðaryfirlýsingu við þriðja aðila og sett aðila á tímabundna innherjalista, þegar skyldan til upplýsingagjafar hefur myndast.